Úr ræðu við vígslu reiðhallar í Borgarnesi
Landbúnaðarráðherra, alþingismenn, sveitarstjóri, sveitarstjórnarmenn, forystumenn samtaka hestamanna og aðrir góðir gestir þessarar vígsluhátíðar. Í dag tökum við formlega í notkun þetta mikla mannvirki sem við erum nú í og svo margir hafa beðið eftir í langan tíma. Ég mun hér í nokkrum orðum rekja aðdragandann að þessari framkvæmd og byggingarsögu, ekki er hægt að fara mjög nákvæmlega í hlutina í stuttu erindi en reynt verður að drepa á aðalatriðin og gefa ykkur þannig mynd af því hvernig framgangurinn hefur verið til þessa. Þetta er því langþráður dagur í okkar hugum, sérstaklega okkar sem höfum fylgt þessu verkefni eftir alveg frá upphafi en það má rekja allt til ársins 2003 er samþykkt var á aðalfundi Hmf. Skugga tillaga um það að kannað yrði hvaða möguleikar væru á því að ráðast í byggingu reiðhallar hérna í Borgarnesi. Auðvitað hafði umræða verið fyrr um málið enda voru reiðhallir byrjaðar að rísa nokkuð víða og höfðu þá þegar sýnt notagildi sitt fyrir hestamennsku og jafnvel aðrar óskyldar greinar. Eru því rétt um 7 ár síðan hugmyndinni var fyrst komið á fæturna þótt veikburða væru í fyrstu. Sveitarstjórn var skrifað og hugmyndinni komið á framfæri, jafnframt því að farið var fram á liðsinni sveitarstjórnar við framgang málsins. Erindi okkar var vel tekið og vinnuhópur skipaður til að halda utan um verkefnið sem var í fyrstu að gera þarfagreiningu og gera tillögu að næstu skrefum og einnig stærð og staðsetningu, var ég skipaður formaður þess vinnuhóps. Íþrótta – og æskulýðsfulltrúa, Indriða Jósafatssyni, var falið að vinna með starfshópnum og var eitt af fyrstu verkum okkar var að fara í skoðunarferðir í því skyni að skoða þær hallir sem upp voru risnar og gera okkur þannig betur í stakk búna til að gera tillögu að næstu skrefum okkar. Var það gert að hausti 2003 og síðan kom skýrsla vinnuhópsins út fyrri hluta árs 2004.
Var þar gerð tillaga að staðsetningu og stærð og gróf kostnaðaráætlun sett fram byggð á reynslutölum frá öðrum. Var fyrsta tillaga sú að reisa húsið sem næst félagsheimili Skugga og tengja byggingarnar saman með milligangi. Nú lá það fyrir að Hrossaræktarsamband Vesturlands og Hestamannafélagið Faxi væru tilbúnir til að koma að verki og var þá skipaður annar starfshópur árið 2005 skipaður fulltrúum þessrara aðila ásamt fulltrúum frá sveitarstjórn en með þessum hópi störfuðu einnig íþrótta – og æskulýðsfulltrúi og bæjarverkfræðingur Borgarbyggðar. Þessi vinnuhópur skilaði af sér skýrslu árið síðla árs 2005 og hefur niðurstöðum hennar verið fylgt í stórum dráttum amk varðandi staðsetningu og stærð hallarinnar. Eins var þar áætlun um framkvæmdahraða en þær tillögur voru víðs fjarri því sem síðar varð. Það var strax hugur í mönnum um að byggja það stórt hús að það nýttist til fleiri hluta en einvörðungu tamninga, var horft til þess að höllin yrði miðstöð sýningarhalds og keppni hér á Vesturlandi. Einkahlutafélagið Reiðhöllin Vindás ehf var svo stofnað formlega af hestamannafélögunum Faxa og Skugga, Hrossaræktarsambandi Vesturlands og Borgarbyggð árið 2006 og því skipuð stjórn en hana skipuðu auk mín, þeir Ómar Pétursson og Ásbjörn Sigurgeirsson. Fyrir hönd Hrossaræktarsamband Vesturlands sat Bjarni Marinósson í stjórninni með málfrelsi og tillögurétti. Starfaði þessi hópur í stjórn fram til hausts 2009 er ný stjórn tók við. Var eitt af fyrstu verkum stjórnar að ráða hönnuð að fyrirhugaðri byggingu og var fyrirtæki Ómars Péturssonar, Nýhönnun ehf. ráðið til verksins og sýndi það sig vera gott skref fyrir verkefnið.
Nú fer þá að koma að aðalþætti erindis míns sem skv. dagskrá er byggingarsagan hússins. Árið 2006 gerðist töluvert, eignarhaldsfélagið var stofnað eins og ég gat um hér áðan, hestamannafélögin sóttu um styrk til sérstaks sjóðs á vegum landbúnaðarráðuneytis um byggingu reiðhúsa og var hvatinn að byggingu fjölda reiðhalla um land allt, sjóðs sem ávallt hefur verið kenndur við þáverandi landbúnaðarráðherra Guðna Ágústsson en hann er einmitt staddur hér í dag, fengum við úthlutað 25 millj. kr. til þessa verkefnis og má segja að það hafi ráðið úrslitum að verkinu var fram haldið enda áttu hestamannafélögin ekkert í sjóðum sem gat réttlætt framkvæmd sem þessa. Borgarbyggð lofaði 30 millj. kr. framlagi greitt á sex árum, auk gatnagerðargjalda og þetta gerði það að verkum að framkvæmd var hrundið úr vör, sveitarfélagið Borgarbyggð er því stór hluthafi í eignarhaldsfélaginu.
Ég má til með segja frá því er ég ásamt Gunnari Erni form. Faxa og Páli Brynjarssyni sveitarstjóra fórum á fund Guðna í ráðuneytinu, líklega í mars 2006 til að fylgja eftir erindi okkar um styrk en við töldum það styrkja okkar málstað að eiga við hann orðastað í eigin persónu. Eftir góðan fund kvaddi Guðni okkur svo með því að flytja okkur passíusálm, man ekki hvaða númer, en hann var að æfa sig fyrir það að lesa hann upp í kirkju á föstunni. Var það vonum hinn ágætasti lestur. Ekki veit ég hvort þessi fundur var umsókn okkar til framdráttar en ekki mun hann hafa spillt og við hurfum af fundi með gott í eyrum. Nú nálguðust sveitarstjórnarkosningar og þótti þá nauðsynlegt að ganga frá formsatriðum áður en til þeirra kæmi og var sérstök viljayfirlýsing um byggingu hússins undirrituð hér á þessum stað undir beru lofti og jafnframt tók Páll þáverandi bæjarstjóri, núverandi sveitarstjóri fyrstu skóflustunguna að reiðhöllinni. Eru einhverjar efasemdir uppi um það að hann hafi hitt á grunninn en það er þá ekki óþekkt hérna í Borgarbyggð og ekki honum að kenna. Höfðu gárungar það raunar í flimtingum að hefði hann haldið áfram að moka hefði verkið gengið hraðar fyrir sig en varð því jarðvegsframkvæmdir hófust ekki aftur fyrr en rúmu ári seinna. Sífellt var verið að skoða hvaða möguleika við hefðum til að byggja – voru margar tillögur skoðaðar og útfærðar. Ávallt lá það þó fyrir að límtréshús, þessarar gerðar, hugnaðist okkur betur en aðrar byggingargerðir en þó voru allir möguleikar skoðaðir og vorum við komnir á fremsta hlunn með að kaupa stálgrindarhús en nánast við undirritun samnings kom í ljós að tilboðið var óraunhæft og því hætt við. Margt var því skoðað og margar tillögur gerðar og kostnaðarreiknaðar. Hins vegar var grunnmyndin komin nokkuð á hreint, húsið 27 x 60 m. með hesthúsi til hliðar, alls rúmlega 1900 fermetrar og því var jarðvegsvinnan boðin út 2007 og í kjölfarið samið við Vélaleigu Sigurðar Arelíussonar um uppgröft og fyllingu. Hófst hann handa við uppgröft 25. júlí og telst það því upphafsdagur eiginlegra framkvæmda. Var jarðvegsskiptum lokið þá um haustið. Hestamannafélögin sóttu um styrk til reiðhallarbyggingar í Hornstein Sparisjóðs Mýrasýslu sem þá var nýstofnaður sjóður en það var sjóður sem hafði það hlutverk að styrkja verkefni er til heilla væru fyrir sveitarfélagið, var þetta eina úthlutunin úr þeim sjóði. Fengum við í styrk úr þessum sjóði 15 millj. kr. sem var
rausnarlegur og rétt að fram komi að stjórnendur Sparisjóðsins voru afar áhugasamir um verkefnið frá því að það var fyrst kynnt fyrir þeim. Því var í desember gengið til samninga við Loftorku um framleiðslu og uppsetningu sökkla undir húsið en þá var búið að ákveða að húsið yrði í þeirri mynd sem þið sjáið hér. Samningur um húsið sjálft og uppsetningu þess var síðan undirritaður í mars 2008. Er það stærsti einstaki samningur sem við gerðum viðvíkjandi þessari framkvæmd en samið var við BM-Vallá um framleiðslu hússins og uppsetningu þess þá um sumarið. Hefði dregist um einhverja mánuði að gera samning er óvíst að af framkvæmdum hefði orðið vegna stöðunnar í efnahagsmálum. Loftorka gekk síðan frá sökklum um vorið undir öruggri verkstjórn Guðmundar Árnasonar frá Beigalda og strax í kjölfarið var byrjað á uppsetningu hússins. Var því verki lokið í október 2008. Þá var húsið komið upp, frágengið að utan og innan án innréttinga. En nú var umhverfið orðið nokkuð annað en verið hafði – hin fræga, en síður vinsæla bankakreppa var skollin á af fullum þunga. Sparisjóðurinn fallinn með tilheyrandi hörmungum fyrir samfélagið og erfitt um alla fjármögnun. Því var úr vöndu að ráð fyrir eigendur og stjórn. Átti að láta staðar numið eða halda áfram og koma húsinu í starfshæft ástand? Sú ákvörðun var tekin að halda áfram framkvæmdum og koma húsinu í notkunarhæft ástand. Var þar teflt á tæpasta vað hvað varðar fjármögnun en eigi að síður var lagt af stað. Því erum við nú hér í dag.
Ákveðið var að koma húsinu í starfhæft horf en láta hesthús mæta afgangi og er því ekki lokið ennþá, því miður. En aðaláherslan var lögð á keppnisvöllinn og áhorfendaaðstöðu ásamt raflögnum og lýsingu. Hófst þessi vinna svo strax í byrjun janúar 2009, fyrir rúmlega einu ári síðan. Guðjón Guðlaugsson var ráðinn til að stýra verkinu og með honum var ráðinn Grettir Börkur Guðmundsson, voru þeir einu starfsmenn fyrirtækisins. Færi ég þeim Gretti og Guðjóni þakkir fyrir þeirra störf sem oft voru unnin við erfiðar aðstæður en þeim tókst með útsjónarsemi að finna lausnir á. Í febrúar var svo komið að þætti félaganna, sjálfboðaliðanna sem hérna lögðu gólfið, reistu áhorfendapallana , máluðu, flísalögðu og gengu frá vellinum. Voru hérna oft margir við störf á kvöldin og um helgar og eins voru nokkrir félagar sem höfðu tök á því að leggja fram vinnu sína á virkum dögum þannig að flesta daga var eitthvað um að vera hérna í húsinu. Án þessarar sjálfboðavinnu hefði þetta ekki tekist og verðmæti vinnunnar og tækja er lagt var fram af félögum eru margar milljónir. Um raflögn og lýsingu sá BM-Vallá og tókust góðir samningar þar um en þessi verkþáttur var með stærri einstöku verkþáttum innanhúss. Rafvirkjar í hópi okkar lögðu einnig fram vinnu við verkið og léttu þannig undir. Í byrjun maí var svo komið að flestir verkþættir voru komnir að lokapunkti – áhorfendapallar komnir og salurinn kominn í það horf sem hann er í nú og töluvert búið að vinna í lóðinni. En erfiðleikar vegna fjárskorts voru einnig orðnir miklir og var framkvæmdum hætt í maí meðan unnið var að lausn þeirra. Fjáröflunardansleikur þann 1. maí sem hestamannafélögin stóðu fyrir skilaði töluverðu. Er tímabilið apríl – júní í minningunni afar sérstakt og reyndi verulega á þolgæði og velvild kröfuhafa. En í júní birti aðeins til og úr rættist þannig að hægt var að greiða allar kröfur sem komnar voru sumar langt fram yfir gjalddaga. Í ágúst var svo gengið frá salernum og lóð og bílastæði sett í það horf sem nú er en hér var haldin glæsileg landbúnaðarsýning í lok ágúst á vegum rekstrarfélags hússins, Seláss ehf. sem Faxi og Skuggi eiga.
Ég hef nú skautað létt um sögusviðið, örugglega hefði mátt fjalla nánar um ýmsa hluti í aðdraganda og síðan á framkvæmdatíma sem í sjálfu sér er ekki langur. Jarðvegsvinna 2007 – sökklar og uppkomið hús 2008 og innanhússfrágangur og lóð árið 2009. Hins vegar er hesthúsi ólokið og er það von mín að leiðir finnist til að ljúka því verki innan ekki langs tíma. Hefur það mikið að segja varðandi notagildi hússins til námskeiðahalds og hestasýninga og keppni. Mörg fyrirtæki hafa komið hér að verki, Nýhönnun, Vélaleiga Sigurðar Arelíussonar, Loftorka, BM-Vallá, Borgarverk, Jörfi, Sparisjóður Mýrasýslu og síðar Kaupþing, nú Arionbanki, Skrifstofuþjónusta Vesturlands, auk fyrirtækja er seldu okkur efni og þjónustu á góðum verðum og kjörum. Öllum þessum aðilum eru færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag til þessa verks. Eins langar mig að þakka þeim fjölmörgu félögum hestamannafélaganna fyrir þeirra góða og ómetanlega framlag. Það hefur verið haft á orði að tími sjálfboðavinnu sé liðinn. Þetta hús sýnir okkur svart á hvítu að enn er til fólk er dugar þegar kemur til þess að leggja hönd að verki sem unnið er til heilla fyrir það samfélag sem við búum í. Það sýndi sig að það var góð ákvörðun að ráða Guðjón Guðlaugsson til starfa – frá því verkið hófst og sérstaklega eftir að sjálfboðaliðsvinnan hófst var hann hérna nánast öllum stundum, ekki bara á virkum dögum á vinnutíma heldur flest kvöld og helgar. Var hann vakinn og sofinn yfir verkefninu og aldrei var svo bratt framundan að ekki fyndist leið. Fyrir það ber að þakka og er gert hér með.
Það er von mín að þetta hús eigi eftir að vera hestamennsku lyftistöng, er það raunar þegar farið að sýna sig – mikil gróska hjá börnum og unglingum sem á eftir að skila sér. Eins að húsið þjóni samfélaginu öllu og verði Borgarbyggð til framdráttar á margvíslegan hátt. Nálægðin við góðar reiðleiðir, hesthúsahverfi, keppnisvelli, útivistarsvæði, hótel og golfsvöllinn er gríðarlegur styrkur sem nýta þarf. Þetta sem ég hef nú rakið er byggingarsaga hússins í stuttu máli.
Mér hefur verið falið af stjórn Reiðhallarinnar Vindási ehf. að greina frá því hvaða nafn þetta hús kemur til með að bera í framtíðinni. Haldin var nafnasamkeppni um daginn og var auglýst eftir tillögum. Fjölmargar tillögur bárust og var úr vöndu að ráða hjá nafnanefndinni sem skipuð var. Skilaði hún tillögu sinni til stjórnar eigendafélags hússins s.l. fimmtudag og samþykkti hún einróma tillöguna og gerði að sinni. Niðurstaðan er sem sagt sú að húsið á að bera heitið Faxaborg.
„Nafnið Faxaborg er vel þekkt um allt land, langt út fyrir raðir hestamanna, en um áratuga skeið voru þar haldin hestamannamót og aðrar samkomur borgfirskra hestamanna. Eins voru þar haldin fyrstu fjórðungsmót á Vesturlandi, það síðasta 1975. Nú hefur öllu mótahaldi hestamanna og annarra verið hætt á þeim stað og þykir nefndarmönnum það einboðið að flytja nafnið á annan stað sem verður væntanlega miðstöð sýninga og skemmtana margskonar um mörg ókomin ár, svipað hlutverk og hin eldri Faxaborg hafði hérna áður fyrr.“ (úr nefndaráliti)
Allmargir stungu upp á þessu nafni og varð því að draga um það hver fengi verðlaun fyrir nafngiftina.
Það kemur í hlut Björgvins Sigursteinssonar að taka hér við gjafabréfi fyrir folatolli frá Hrossaræktarsambandi Vesturlands. Til hamingju Björgvin og þakkir til Hrossaræktarsambandsins
fyrir stuðninginn.
Til hamingju Borgfirðingar með þetta glæsilega hús Faxaborg. Gæfa fylgi því á komandi árum og megi okkur öllum auðnast að standa styrkan vörð um það og hlutverk þess í framtíðinni. Takk fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu ævintýri.