Lög Hestamannafélagsins Borgfirðingur í Borgarfirði

Lög Hestamannafélagsins Borgfirðings í Borgarfirði

 

 1. grein.  Heiti, heimili og varnarþing

„Félagið heitir Hestamannafélagið Borgfirðingur Starfssvæði þess er Mýra- og Borgarfjarðarsýsla norðan Skarðsheiðar.  Heimili þess er í félagsheimili félagsins, að Vindási, í Borgarnesi. Félagið er aðili að U.M.S.B.,U.M.F.Í, L.H. og Í.S.Í. og er háð lögum, reglum og samþykktum þessara samtaka.“

 

 1. grein.  Tilgangur og markmið

„Markmið félagsins er að efla áhuga á hestum og hestaíþróttum í sem víðtækastri merkingu þess orðs, stuðla að góðri meðferð hrossa og gæta hagsmuna félagsmanna í hvívetna.

Í samræmi við ofangreind markmið hyggst félagið vinna að eftirfarandi verkefnum:

 1. Byggja upp reiðvegi og viðhalda reiðvegum og reiðleiðum sem víðast í Borgarfirði, með það að leiðarljósi að gera hestamönnum sem auðveldasta og hættuminnsta för um héraðið. Reiðvegum skal haldið við eins vel og efni og aðstæður leyfa hverju sinni. Að byggja upp nauðsynleg mannvirki vegna starfsemi félagsins, svo sem velli, reiðaðstöðu og félagsheimili.
 2. Að halda mannvirkjum í eigu félagsins í sem bestu ástandi og tryggja góða aðstöðu fyrir mótahald og hvers konar hestaíþróttir.
 3. Að halda gæðingakeppnir, íþróttamót, kappreiðar og sýningar ásamt því að leggja hrossarækt lið, svo sem kostur er hverju sinni.
 4. Að vinna að því, að flutt sé á vegum félagsins fræðsluerindi um hestaíþróttir, hestaumhirðu, hrossarækt og önnur málefni á áhugasviði hestamanna innan félagsins.
 5. Að stuðla að öflugu og fjölbreyttu æskulýðsstarfi.
 6. Að birta árlega skýrslur um helstu störf á vegum félagsins, þar verði m.a. greint frá starfsemi liðins árs og árangri félagsmanna á mótum.
 7. Að koma á framfæri sjónarmiðum félagsmanna á málum sem varða sameiginlega hagsmuni þeirra, svo sem skipulags- landnýtingar- og umferðarmálum, m.a. gagnvart sveitafélögum og ríkisvaldi.“

 

 

 

 1. grein.  Félagsaðild

„Félagar geta allir orðið sem þess óska og eru reiðubúnir að hlíta lögum og reglum félagsins.  Umsókn um inngöngu í félagið skal senda stjórn félagsins sem tekur afstöðu til hennar og skráir nýja félagsmenn.  Í umsókn skal greina nafn, kennitölu, heimilisfang, síma og netfang umsækjanda, sé þess kostur.  Öðlast umsækjandi full félagsréttindi þegar stjórn félagsins hefur samþykkt umsóknina og þegar umsækjandi hefur greitt félagsgjald yfirstandandi starfsárs, enda skuldi þeir ekki félagsgjald síðustu tveggja ára í hestamannafélagi innan LH.  Keppnisréttur er háður ákvæðum laga LH og ÍSÍ.  Nýir félagar skulu kynntir á næsta aðalfundi.  Vilji félagsmaður ganga úr félaginu skal hann tilkynna það skriflega til stjórnar.  Úrsagnir skal kynna á næsta aðalfundi.

Félagar sem ekki greiða félagsgjald fyrir 1. apríl ár hvert, hafa ekki rétt til að taka þátt í keppnum á vegum félagsins né réttindi á fundum þess fyrr en þeir hafa greitt skuld sína.  Brjóti félagi alvarlega af sér gegn lögum og reglum félagsins, er stjórn þess heimilt að víkja honum úr félaginu.  Brottviknum félaga er heimilt að áfrýja máli sínu til næsta aðalfundar.“

 

 1. grein.  Félagsgjöld

„Aðalfundur ákveður árlegt félagsgjald sem skal greiða 1. apríl ár hvert.  Félagsmenn bera enga persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins og ber félagið eitt ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað er til í nafni þess.  Heiðursfélagar og félagsmenn 70 ára og eldri og þeir sem eru yngri en 18 ára greiða ekki félagsgjald. Gjaldskylda hefst á því almanaksári sem félagi verður 18 ára og lýkur á því ári sem félagsmaður verður 70 ára.  Þeir félagsmenn sem ekki hafa greitt árgjöld sín fyrir 30. september ár hvert, teljast ekki lengur félagsmenn og verða afskráðir á næsta aðalfundi þar á eftir, hafi þeir ekki gert upp fyrir aðalfundinn.“

 

 1. grein.  Heiðursfélagar

„Hafi einhver maður að dómi félagsstjórnar unnið félaginu sérstaklega vel eða gert félaginu svo mikið gagn að ástæða þyki til að sýna fyrir það sérstakan heiður og viðurkenningu, er stjórn félagsins heimilt að gera viðkomandi að heiðursfélaga  í félaginu og skal gera grein fyrir því á aðalfundi félagsins.  Heiðursfélögum skal afhent skjal, því til staðfestingar, undirritað af stjórn félagsins.  Heiðursfélagar njóta sömu réttinda og aðalfélagar en verða gjaldfrjálsir frá móttöku viðurkenningar.“

 

 1. grein. Stjórn, kosningar

„Stjórn félagsins skipa átta manns: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og fjórir meðstjórnendur.  Formaður er kosinn sérstaklega, til eins árs í senn, aðrir stjórnarmenn til tveggja ára, fjórir stjórnarmenn annað árið en þrír hitt árið.  Verði stjórnarmaður kosinn formaður á miðju kjörtímabili sínu skal kjósa annan í hans stað til eins árs.  Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.  Á aðalfundi skal kjósa til eins árs í senn tvo skoðunarmenn og tvo til vara, til að yfirfara reikninga félagsins.  Skoðunarmenn þurfa ekki að vera félagar í félaginu.  Kosningar skulu vera skriflegar ef tillaga kemur um fleiri en kjósa skal.“

 

 1. grein. Starfssvið og ábyrgð stjórnarmanna.

„Formaður er fulltrúi félagsins út á við og framkvæmdastjóri þess, en stjórn félagsins getur þó ákveðið að annar stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins gegni starfi framkvæmdastjóra.  Formaður er sjálfkjörinn á þing L.H. og U.M.S.B.  Hann boðar til stjórnarfunda og félagsfunda eftir þörfum, en honum er þó skylt að boða til fundar ef þrír stjórnarmanna óska þess.  Ritari ritar gerðabók á stjórnarfundum og  og annast skjalavörslu félagsins.  Gjaldkeri hefur fjárreiður félagsins með höndum og annast innheimtu,  ávaxtar fé félagsins og annast greiðslur eftir ávísun formanns.  Gjaldkera er heimilt að ráða sér til aðstoðar aðra félagsmenn við innheimtu félagsgjalda og bókhald félagsins, enda beri hann ábyrgð á því sjálfur.  Að öðru leiti ákveður stjórn hverju sinni um skiptingu verkefna milli stjórnarmanna.  Félagsstjórn hefur forgöngu í allri starfsemi félagsins.  Þó nefndum sé  falin tiltekin verkefni eru þau á ábyrgð stjórnar.

Stjórn félagsins ber að varðveita öll skjöl og gögn er geyma heimildir um störf félagsins, svo sem félagaskrá, bókhaldsgögn, samninga og bréf.

Stjórninni er heimilt að ráða félaginu framkvæmdastjóra með samþykki aðalfundar og fela honum hluta þeirra verkefna sem nefnd eru hér að framan.  Stjórnin skal framkvæma ákvarðanir aðalfunda og standa skil á skýrslum til þeirra félagasamtaka sem félagið er aðili að.  Heimilt er félaginu að gerast aðili að samtökum sem starfa á vettvangi sem falla undir áhugasvið,  er félagið hefur á stefnuskrá sinni.“

 

 

 1. grein. Félagsfundir.

„Stjórn félagsins boðar félagsfund eins oft og þurfa þykir.  Sama er, ef minnst 10% félagsmanna æskja þess skriflega til stjórnar og tilgreina fundarefni.  Stjórn félagsins skal boða þessa fundi með minnst fimm daga fyrirvara með auglýsingu á vefsíðu félagsins, með auglýsingu í dreifiriti á félagssvæðinu eða með bréflegri tilkynningu.

Fundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.  Einfaldur meirihluti skal ráða úrslitum allra mála á fundum félagsins, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

Formaður eða staðgengill hans setur fundi og lætur kjósa fundarstjóra í byrjun fundarins.  Hinn kjörni fundarstjóri skal byrja á því að leggja fyrir fundinn hvort löglega hafi verið til hans boðað.  Sé fundur ekki lögmætur, má boða til hans að nýju á venjulegan hátt.  Félagar yngri en 18 ára hafa ekki kosningarétt eða kjörgengi á félagsfundum en málfrelsi og tillögurétt.“

 

 1. grein.  Aðalfundur

„Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.  Aðalfund skal halda fyrir 1. desember ár hvert og skal hann boðaður skv. ákvæðum í 8. grein, en þó með minnst 10 daga fyrirvara.

 

Dagskrá aðalfundar skal vera:

 1. Fundarsetning
 2. Kjör starfsmanna fundarins
 3. Formaður leggur fram og kynnir skýrslu stjórnar, um störf félagsins á síðasta starfsári.
 4. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar, skoðaða og áritaða af skoðunarmönnum félagsins
 5. Skýrslur nefnda
 6. Umræður um skýrslu stjórnar, ársreikninga og skýrslur nefnda, ásamt afgreiðslu á ársreikningum
 7. Kynning á inngöngu nýrra félaga og úrsögnum félagsmanna
 8. Lagabreytingar, hafi tillaga eða tillögur komið fram
 9. Kosning stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanna og nefnda.
 10. Ákvörðun um félagsgjöld og hagagjöld
 11. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár skal lögð fram af fráfarandi stjórn
 12. Önnur mál, sem félagið varðar.

 

 1. grein.  Reikningsár félagsins

„Reikningsár félagsins er frá 1. október til 30. september.“

Greinin samþykkt samhljóða.

 

 1. grein.  Starfsnefndir

„Stjórn félagsins er heimilt að skipa nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum og setja þeim starfsreglur. Eftirtaldar fastanefndir skulu skipaðar á aðalfundum félagsins:

Æskulýðsnefnd
Mótanefnd
Reiðvegnefnd
Vallar- og umhverfisnefnd
Laganefnd
Húsnefnd félagsheimilis
Rafmagnsnefnd
Beitarnefnd
Fræðslunefnd
Skemmtinefnd

Aðalfundur ákveður fjölda nefndarmanna hverju sinni.

Hverfi nefndarmaður úr félaginu eða forfallast til lengri tíma, skal stjórn félagsins skipa nýjan nefndarmann á fyrsta tilfallandi stjórnarfundi. Skulu allar nefndir á vegum félagsins bundnar af lögum félagsins og starfslýsingum sem stjórn kann að setja þeim, á hverjum tíma. Öll fjármál nefnda skulu fara í gegnum stjórn félagsins.“

 

 1. grein.  Aðild að íþrótta- og félagasamtökum

„Félaginu er heimilt að vera aðili að almennum samtökum hestamannafélaga í landinu. Félagið er aðili að UMSB og þar með U.M.F.Í, Landsambandi hestamannafélaga og Í.S.Í.  Stjórn félagsins skal skipa fulltrúa á ársþing UMSB og á LH þing. Val stjórnar á fulltrúum á héraðsþing UMSB og LH þing skal miðast við félagsmenn skv. félagatali s.l. starfsárs. Kjörgengi og kosningarétt til íþróttaþings og ársþings sambandsaðila Í.S.Í. hafa þeir félagsmenn sem náð hafa 18 ára aldri sbr. 7.gr. laga Í.S.Í.“

 

 1. grein.  Þátttaka í félagarekstri

„Heimilt er að félagið taki þátt í stofnun og eigi í félögum, s.s. hlutafélögum, sem hafa það að markmiði að bæta aðstöðu og vinna að hagsmunum félagsmanna og hestamanna almennt.  Þessi heimild skal háð samþykki félagsfundar hverju sinni.  Stjórn félagsins skal tilnefna og/eða skipa fulltrúa félagsins á fundi slíkra félaga og í stjórnir þeirra, eftir því sem samþykktir þeirra segja fyrir um.“

 

 1. grein. Umsýsla fasteigna félagsins

„Stjórn félagsins er óheimilt að selja fasteignir þess, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra, nema samþykki lögmæts félagsfundar komi til.  Ef stjórn hyggst leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun skal geta þess í fundarboði.  Heimildir samkvæmt grein þessari skal nota innan tveggja ára frá því þær eru veittar.“

 

 1. grein.  Lagabreytingar

„Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi.  Minnst 2/3 hlutar greiddra atkvæða þarf til að tillaga um lagabreytingu teljist samþykkt.  Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn fyrir 30. september, ár hvert og skal geta þeirra í aðalfundarboði.“

 

 1. grein. Slit félagsins

„Félaginu verður ekki slitið eða það leyst upp,  nema með samþykki aðal- eða félagsfundar,  sem boðaður skal með sama hætti og aðalfundur og tillaga þess efnis fylgi fundarboði.  Samþykki 2/3 fundarmanna þarf til að tillaga um slit félagsins nái fram að ganga.  Verði félaginu slitið eða það leyst upp skulu eignir þess varðveittar af Borgarbyggð þar til nýtt félag, viðurkennt af L.H. hefur verið stofnað.  Renna þær eignir þá til hins nýja félags, eða félags sem tekur upp hliðstæða starfsemi á starfssvæðinu.“

 

 1. grein.  Gildistaka

„Félagið varð til við sameiningu hestamannafélaganna í Borgarfirði, Faxa og Skugga, sem samþykktu bæði á aðalfundum sínum 30. nóvember 2017 að sameining félaganna færi fram með samruna þeirra og stofnun félags með nýtt nafn og ný lög.

Lög þessi öðlast gildi á stofnfundi hins nýja sameinaða félags, þriðjudaginn 16. janúar 2018.“

 

Samþykkt samhljóða á stofnfundi Hestamannafélagsins Borgfirðings þann 16. janúar 2018.