Á tímum COVID19

Það eru sérkennilegir tímar nú um stundir og hafa verið síðustu vikur, samkomubann og óáran. Ekki er útséð um það ennþá hvenær aftur fer að verða óhætt að setja starf hestamannafélagsins af stað – það verður þó aldrei sem áður – Við erum væntanlega búin að missa af innitímabilinu að mestu og er skellurinn fyrir Faxaborg og Selás ehf mikill. Staða Borgfirðings er með þeim hætti að félagið þolir nokkrar hörmungar en það er félagslegi þátturinn sem er undir. Viðbúið er að samkomubann verði framlengt, hversu lengi er ómögulegt að segja til um, hugsanlega út apríl. Í bili er það eina sem hestamenn geta gert er að halda áfram að ríða út, temja og þjálfa með það í huga að hestarnir verði sem best undirbúnir fyrir keppni og ferðir sumarsins. Við megum ekki reikna með að allt tímabilið sé ónýtt.  Við pössum bara upp á fjarlægðir milli manna og það helsta sem okkur hefur verið innprentað undanfarnar vikur. Við reiknum enn með því að geta haldið mót í maí líkt og dagskrá gerir ráð fyrir, verða það þá fyrstu mót vetrarins. Nú og ef eitthvað slaknar á ástandinu þá verður unnt að koma starfsemi nokkuð hratt í gang, námskeiðum og mótum ef vill.