Félagsstarfið

Það hefur ekki enn gefist tækifæri til þess að boða til aðalfundar félagsins af þekktum ástæðum, og erum við ekki eina félagið sem á við þann vanda að stríða. Er ljóst að ekki verður af því fyrr en eftir 12. janúar í fyrsta lagi, fer auðvitað eftir þeim reglum sem taka þá við. Því hefur ekki verið kosið til stjórnar og í nefndir félagsins fyrir næsta starfsár. Er það auðvitað bagalegt þar sem ýmis starfsemi ætti að fara af stað strax á nýju ári, jafnvel fyrr. Má þar nefna mótanefnd, fræðslunefnd og æskulýðsnefnd sem þurfa að skipuleggja starfið tímanlega.

Nú er því leitað til félagsmanna, þeirra sem áhuga hafa á því að taka þátt í félagsstarfinu og efla það, um að gefa kost á sér til stjórnar – og/eða nefndarstarfa á komandi ári svo uppstilling gangi hratt fyrir sig þegar kemur að aðalfundi, sem vonandi verður fyrr en síðar. Framundan er spennandi ár – m.a.  fjórðungsmót í Borgarnesi , auk hefðbundinna móta. Áhugasamir mega endilega senda póst á formadur@borgfirdingur.is eða hafa samband við einhvern stjórnarmanna.