Landssýning kynbótahrossa 2020

Ákveðið hefur verið að blása til landssýningar á kynbótahrossum laugardaginn 27. júní á Gaddstaðaflötum við Hellu. Þar verða 10 efstu hross landsins, eftir dóma vorsins, ítarlega kynnt og verðlaunuð, í öllum flokkum hryssna og stóðhesta. Einnig verður um afkvæmasýningar að ræða en þeir stóðhestar sem eiga rétt á fyrstu- og heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi geta komið þarna fram og verða verðlaunaðir. Allir þeir verðlaunagripir sem veittir eru á landsmótum í einstaklingssýningum og til handa afkvæmahestum verða veittir við þetta tilefni. Viðburðurinn verður afar vel kynntur á vefnum og aðgengilegur þar í gegnum beint streymi en einnig verður dagurinn tekin upp á myndband til varðveislu í WorldFeng. Þá munu áhorfendur verða velkomnir byggt á þeim reglum um sóttvarnir vegna Covid-faraldursins sem verða í gildi á þessum tíma.

Þessi spennandi viðburður verður kynntur nánar síðar.

Félag hrossabænda