FM2021 – fjórði dagur 10.7.

Laugardagurinn var helgaður kynbótahrossum fram eftir degi en þá var Landssýning kynbótahrossa. Þar máttu koma fram 10 efstu hross í hverjum flokki yfir landið eftir kynbótasýningar vorsins. Var vel mætt og sáu áhorfendur, sem voru fjölmargir, margar góðar sýningar. Veðrið lék við mótsgesti þannig að engum lá á. Seinni partinn fóru svo fram B úrslit í B og A flokkum og síðar A úrslit í töltgreinum og 100 m. skeiði. Í tölti T3 undir 17 varð Kristín Karlsdóttir í 3. sæti en hún vann B úrslitin daginn áður. Sigurvegari var Guðmar Hólm Ísólfsson úr Þyt á Ósvör f. Lækjarmóti. Bjarki Þór Gunnarsson úr Snæfellingi sigraði tölt T3 á Sól f. Söðulsholti. Tölt T1 sigraði svo Jakob Svavar Sigurðsson úr Dreyra á Hálfmána f. Steinsholti. 100 m. skeiðið sigraði svo Konráð Valur Sveinsson á Kjarki f. Árbæjarhjáleigu.

Síðar um kvöldið voru ræktunarbú verðlaunuð en það var Íbishóll sem bar sigur úr bítum í keppni ræktunarbúa kvöldið áður. Þrír félagar úr Borgfirðingi  hlutu gullmerki LH, þeir Benedikt Líndal, Kristján Gíslason og Marteinn Valdimarsson og Þórir Ísólfsson úr Þyt.