Sameining Faxa og Skugga

Sameining hestamannafélaga í Borgarfirði

Þann 16. janúar s.l. var endanlega gengið
frá sameiningu hestamannafélaganna Faxa og Skugga með því að haldinn var
sameiginlegur framhaldsaðalfundur félaganna þar sem ný lög voru samþykkt og
kosið var í stjórn og nefndir. Félagið hefur enn ekki hlotið nafn en félagsmenn
munu kjósa, í rafrænni kosningu, milli fimm nafna sem valin voru úr innsendum
tillögum. Þessi nöfn eru Borgfirðingur, Fjöður, Glampi, Skeifa og Taktur. Innan
fárra daga ætti því að vera orðið ljóst hvaða nafn verður fyrir valinu.

Fyrsti formaður félagsins var kjörin
Þórdís Arnardóttir og með henni í stjórn eru: Haukur Bjarnason, Marteinn
Valdimarsson, Reynir Magnússon, Sigurþór Óskar Ágústsson, Björg María
Þórsdóttir, Guðrún Fjeldsted og Kristján Gíslason. Stjórnin á eftir að skipta
með sér verkum.

Það er ætlun nýrrar stjórnar að ganga
rösklega til verka, bæði hvað varðar hin praktísku atriði sameiningarinnar og
eins að því að efla félagslega þáttinn, ekki hvað síst með öflugu
æskulýðsstarfi. Aðstaða félagsins til mótahalds og annars félagsstarfs er með
því sem best gerist og fjárhagsstaða er góð.

það er von okkar, og raunar vissa, að hér
hafi verið tekið framfaraspor í félagsstarfi hestamanna. Borgfirskir hestamenn
koma nú sameinaðir fram undir einu merki og öflugri en nokkru sinni fyrr.